Gervitár

  • Gervitár eru augndropar sem líkja eftir samsetningu okkar eigin tára. 
  • Notkun þeirra hefur aukist mjög á undanförnum áratugum og er ástæðan einföld:  Umhverfi margra einstaklinga er orðið miklum mun þurrara en áður var vegna fjölda allskyns tækja og tölva í kringum okkur.  Tækin og tölvurnar hita umhverfi okkar og minnka rakastig í kringum sig.  Þegar við bætist að við blikkum mun sjaldnar þegar við horfum á tölvu heldur en t.d. við lestur bókar verður uppgufun tára úr augum meiri og augu verða því þurrari.
  • Fjöldi einstaklinga með þurr augu hefur því aukist mjög á síðustu árum.
  • Gervitár eru til bæði með og án rotvarnarefna, þau fyrrnefndu eru í hefðbundnum augndropaflöskum, en þau síðarnefndu í litlum lykjum sem duga einungis í 24 klst eftir opnun.  Gervitárum er oftast dreypt á þann hátt í augu að neðra augnlok er dregið niður svo að poki myndast í slímhúð augans.  Dreypt er einum dropa í pokann og síðan augnlokinu sleppt.  Þegar við blikkum augunum dreifum við tárinu um augað. Verkan gervitára er yfirleitt 1-2 klukkutímar, en tárin verka á sama hátt og venjuleg tár, að útbúa hlífðarfilmu fyrir augun. 
  • Gervitár eru einnig til í mismunandi formi, sum eru vatnskennd og endast stutt (1 klst), önnur í gelformi, þ.e. hlaup, sem verka lengur, allt upp undir 4-5 klukkustundir. 
  • Oft er best að nota slík gervitár fyrir svefn, þar sem þau hafa áhrif á sjónina, þ.e. hún verður þokukennd í 1-2 mínútur á eftir.  Gervitár má kaupa án lyfseðils og er sérstök ástæða til að taka það fram að notkun þeirra dregur ekki úr táramyndun, þannig að fólk þarf ekki að "spara" þau við sig þess vegna. 

Fáðu nýjustu tilboðin

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu nýjustu tilboðin beint í pósthólfið þitt

Netfang: