Augneftirlit

Afar mikilvægt er að fylgjast reglulega með augum.  Augnlæknar eru ósjaldan spurðir að því hversu oft einstaklingar þurfi að fara til augnlæknis.

Svarið við því byggir á mörgum þáttum, s.s. aldri einstaklingsins og heilsu. 

 • Vegna þess að margir augnsjúkdómar verða algengari með aldri þurfa einstaklingar yfir sextugu jafnan að fara oftar til augnlæknis en þeir sem eru undir fertugu. 
 • Mjög mikilvægt er fyrir þá sem eru með sjúkdóma eins og sykursýki og bandvefssjúkdóma að fara a.m.k. á 2 ára fresti til augnlæknis og stundum oftar. 
 • Þeir sem greinast með augnsjúkdóma á borð við gláku þurfa að fara a.m.k. á 1 árs fresti og stundum oftar til augnlæknis. 
 • Þeir sem hafa fengið greininguna lithimnubólgu þurfa að komast innan 2-3 daga til augnlæknis fái þeir einkenni. 
 • Sum augneinkenni eru jafnframt alvarlegri en önnur, eins og ljósglampar og skyndilegt ský fyrir auganu og þarf einstaklingur þá að komast þegar í stað til augnlæknis.

 

augneftirlit

Amerísku augnlæknasamtökin (American Association of Ophthalmology) hefur útbúið skema um hvenær æskilegt sé að leita augnlæknis og hversu oft.

 

 • Ungabörn þurfa oftast ekki að fara til augnlæknis nema sérstakar aðstæður bendi til vandamála með augu.  Ungabörn sem þurfa að vera í súrefnistjaldi í lengri tíma gangast jafnan sjálfkrafa undir augnskoðun á spítalanum.  Ef fjölskyldusaga er um sjónhimnuæxli (retinoblastoma), ský á augasteini, barnagláku, ákveðna erfðasjúkdóma eða efnaskiptasjúkdoma þarf augnlæknir að skoða augu barnsins a.m.k. einu sinni.
 •  Börn þarf að skoða ef grunur er á vandamálum með sjón, eins og rangeygni (stundum kallað "skjálgi"), ef sjáaldur sýnist hvítt á myndum sem teknar eru með flassi, eða ef barn hallar mikið undir flatt.  Jafnframt þarf að fylgjast með því hvort barn sitji of nálægt sjónvarpi, eigi erfitt með að vinna með hluti nálægt sér eða ef það gengur á hluti sem það ætti að geta forðast auðveldlega.  Eins og um aðra sjúkdóma gildir sú gullna regla að best sé að uppgötva sjúkdómana sem fyrst.  Þar sem sjón er að þroskast fyrstu æviárin er enn mikilvægara að finna augnsjúkdóma í börnum og ættu öll börn að gangast undir augnskoðun að minnsta kosti einu sinni fyrir 5 ára aldur hjá augnlækni.  Þriggja og hálfsársskoðunin sem öll íslensk börn gangast undir er mjög mikilvæg og nægir í flestum tilvikum til að greina mestu sjónlagsgalla.  Hins vegar er ávallt möguleiki á því að sjónlagsgalli greinist ekki og getur þá myndast svokallað "letiauga" (amblyopia, lazy eye), þar sem heilinn hefur ekki þroskað nægilega samband við annað augað og verður því ávallt mun síðri sjón á auganu.  Þetta er í mörgum tilvikum hægt að hindra áður en einstaklingur nær sex ára aldri, en eftir það er það orðið of seint.  Mjög mikilvægt er að meðhöndla alla sjónlagsgalla með gleraugum þegar það á við og gegnir augnlæknir þar lykilhlutverki.
 • Börn á skólaaldri ætti að skoða u.þ.b. á 2 ára fresti og oftar ef nauðsyn krefur.
 • Einstaklingar með sykursýki af týpu 1 ætti að skoða a.m.k. á 2 ára fresti. 
 • Allir einstaklingar án sögu um augnsjúkdóma eða augneinkenni ættu að fara í augnskoðun um fertugt.  Einstaklingar án áhættuþátta á aldrinum 40-54 ára ættu að fara í augnskoðanir á 2-4 ára fresti.  Einstaklingar án áhættuþátta eða augneinkenna 55-64 ára ættu hins vegar að fara í augnskoðun á 1-3 ára fresti. 
 • Einstaklingar eldri en 65 ára ættu að fara í augnskoðun á 1-2 ára fresti.
 • Einstaklingar með ýmsa sjúkdóma sem áhrif hafa á augu þurfa að fara oftar til augnlæknis og er tíðni ráðlagðra skoðana mjög mismunandi eftir því hvaða sjúkdómar eiga í hlut. 
 • Ekki er þörf á að einstaklingar undir fertugu (nema börn á skólaaldri sbr. að ofan) fari í reglulegar augnskoðanir augnlækna hafi þeir engin einkenni frá augum.